Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Jólasýning 2010

Mynd nr. 01

Mynd nr. 01

Jóhanna Ásgrímsdóttir og Bjargsteinn Þórðarson á Sæbakka Borgarfirði eystra með börnum sínum Margréti, Birni og Ásgrími. Myndina tók Sveinn Guðnason á fjórða áratug 20. aldar.
Mynd nr. 02

Mynd nr. 02

Sigríður H. Þormar, Ragnheiður Halldórsdóttir og Þórunn Stefánsdóttir. Sú síðastnefnda (ef marka má glæsilega hattatísku) væntanlega nýkomin frá námi í fatasaumi og hannyrðum í Kaupmannahöfn. Myndin tók Brynjólfur Sigurðsson á Seyðisfirði. Tíminn er óviss en gæti verið í kringum 1907-1910.
Mynd nr. 03

Mynd nr. 03

Heimilisfólkið í Möðrudal. Frá vinstri: Óþekkt kona, Jóhanna Jónsdóttir, Þorlaug Jónsdóttir, Þórunn Vilhjálmsdóttir húsfreyja styður hönd á öxl Kristínar Oddsen fósturdóttur sinnar. Jón A. Stefánsson, Þórhallur Jónsson, Vilhjálmur Jónsson og Stefán Jónsson. Myndin er sennilega tekin á árabilinu 1925-1928. Heimild: Guðlaug Ólafsdóttir.
Mynd nr. 04

Mynd nr. 04

Magnea Herborg Jónsdóttir húsfreyja í Sauðhaga á Völlum með börn sín og Sigurðar Björnssonar. Þau eru í aldursröð Anna húsfreyja á Gunnlaugsstöðum (fyrir miðri mynd), Ingibjörg lengi ráðskona hjá Skógræktinni á Hallormsstað, Páll (lengst til vinstri) og Björn (í fangi móður sinnar) bændur í Sauðhaga og Magnús bóndi á Úlfstöðum. Myndin er tekin snemma á fjórða áratug 20. aldar og er Jón bóndi í Lundi yngsti sonurinn, þá ekki fæddur. Þess má til gamans geta að öll systkinin settust að í heimasveit sinni Vallahreppi og urðu þar sannir bústólpar. Myndin er ekki merkt ljósmyndara en Amalía Björnsdóttir (Sigurðssonar) telur að Ólafur Hallsson hafi tekið myndina. Ólafur var eiginmaður Guðrúnar Björnsdóttur systur Sigurðar Björnssonar í Sauðhaga.
Mynd nr. 07

Mynd nr. 07

Heimilisfólk og gestir á Kolmúla við Reyðarfjörð. Á myndinni sem líklega er tekin upp úr miðri 20. öld þekkir skrásetjari aðeins ábúendur, þau Jónas Benediktsson og Guðnýju Petru Guðmundsdóttur og synina Benedikt og Jónas og eru upplýsingar um nöfn annarra á myndinni vel þegnar. Myndin er úr myndasafni frá Jónasi Jónassyni frá Kolmúla. Ljósmyndari óþekktur.
Mynd nr. 08

Mynd nr. 08

Mynd frá bræðrunum á Kolmúla. Henni fylgja þær upplýsingar að þarna sé fólk á leið til Kolfreyjustaðar í fermingu Jónasar Jónassonar sem er fæddur árið 1923. Myndin ætti því að vera tekin árið 1937. Í samtali við Jónas, sem kveðst vera pilturinn sem situr á upp á vörðunni, kom fram að í þessum hópi var unga fólkið frá Kolmúla og nágrannabæjum. Þeir eldri fóru ríðandi.
Mynd nr. 10

Mynd nr. 10

Þessari mynd fylgja þær upplýsingar að hún sé af börnum Haraldar Briem og Þrúðar Þórarinsdóttur konu hans, en þau bjuggu m.a. á Búlandssnesi og síðar á Rannveigarstöðum í Álftafirði. Þau hjón eignuðust níu börn en aðeins fjögur komust til fullorðinsára. Á myndinni eru systurnar þrjár, taldar frá vinstri: Valgerður Briem, Guðný Briem og Dómhildur Briem. Sitjandi er Ólafur Briem bróðir þeirra. Viti einhver betur er aðstoð hans vel þegin. Myndina tók Ólafur Oddsson, ljósmyndari sem var kvæntur Valgerði. Óvíst er hvenær myndin var tekin.
Mynd nr. 11

Mynd nr. 11

Hjónin Daníel Sigurðsson og Guðný Jónsdóttir bændur á Kolmúla. Með þeim á myndinni er tvö börn þeirra, Guðjón síðar bóndi Kolmúla og Sigrún húsfreyja á Vattarnesi. Myndin sem ekki er stimpluð með nafni ljósmyndara er líklega tekin á árabilinu 1930-1940.
Mynd nr. 12

Mynd nr. 12

Þorsteinn Sigurðsson læknir og Friðbjörg Sigurðardóttir með synina (sem heita í aldursröð): Ívar (f. 1944), Þórhallur (f. 1948), Jón Sigurður (f. 1954), Hróar (f. 1958) og Finnur (f. 1961). Myndin er ekki stimpluð með nafni ljósmyndara en er trúlega tekin af Vilberg Guðnasyni. Myndin er tekin skömmu eftir 1960.
Mynd nr. 13

Mynd nr. 13

Heimilisfólkið á Hákonarstöðum á Jökuldal. Talið frá vinstri: óþekktur, Torfi Hermannsson, Guðfinna Torfadóttir, Þorfinnur Þórðarson (heldur á Þórði eldri), Sigvaldi Torfason, Jónína Rustikusdóttir með Hákon Pétursson (fyrir framan sig), Guðný Torfadóttir (með Kristján Jökul), Margrét Pétursdóttir og Sæbjörg (eftirnafn vantar) vinnukona. Miðað við aldur barnanna er trúlegt að myndin sé tekin á þriðja áratug 20. aldar. Ljósmyndari er Eyjólfur Jónsson, Seyðisfirði.
Mynd nr. 14

Mynd nr. 14

Guðný Halldórsdóttir á Krossanesi við Reyðarfjörð viðrar handavinnuna sína. Myndin er úr myndasafni frá Jónasi Jónassyni á Kolmúla. Óvíst er hver tók myndina og hvenær.
Mynd nr. 15

Mynd nr. 15

Heimilisfólk og gestir í Höfn á Borgarfirði í kringum 1935. Fullorðnir, talið frá vinstri: Guðrún Sigurðardóttir Borg, Stefanía Magnúsdóttir Höfn, Jón Magnússon Höfn, Sigurður Sigurðsson (Súddi) Brúnavík, Ólafur P. Þorsteinsson Höfn, Filipus Sigurðsson Brúnavík, síðar kaupmaður á Seyðisfirði, Ragnhildur Jónsdóttir Hól, Magnús Þorsteinsson Höfn. Börn, talið frá vinstri: Bjarni, Þórhalla og Jón Sveinsbörn. Á myndina vantar Þorstein Magnússon og Þórdísi Jónsdóttur, sem líklega var á bak við myndavélina. Gefandi og heimildarmaður er Magnús Þorsteinsson, bóndi í Höfn.
Mynd nr. 18

Mynd nr. 18

Heimilisfólkið Steintúni í Bakkafirði. Á myndinni eru hjónin Magnús Þórarinsson og Jórunn Thorlacius ásamt börnum og öðru skylduliði. Gamli maðurinn á myndinni er Daníel Thorlacius faðir Jórunnar. Myndina tók Brynjólfur Sigurðsson ljósmyndari. Hann var við myndatökur á Seyðisfirði árabilinu 1899-1911 og lagði þá á stundum land undir fót og ferðaðist um Austurland og tók myndir. Eins og sjá má hefur hann haft baktjald í farteskinu sem dugði skammt þegar hópurinn var stór eins og í þessu tilfelli.
Mynd nr. 19

Mynd nr. 19

Á þessari fallegu fjölskyldumynd af Guðbjörgu Gísladóttur, Sveinbirni Sveinssyni og börnum á Hámundarstöðum í Vopnafirði er baktjaldið náttúran sjálf. Myndina tók N.P. Nielsen ljósmyndari frá Kaupmannahöfn í flæðarmálinu. Ekkert finn ég um ferðalag ljósmyndarans til Íslands, en myndin mun vera tekin sumarið 1913.
Mynd nr. 20

Mynd nr. 20

Í Ljósmyndasafni Austurlands er lítið af fjölskyldumyndum frá seinni hluta 20. aldar. Í myndasafni blaðsins Gálgaáss er þó að finna fjölskyldumynd af hjónunum Helgu Magneu Steinsson og Einari Má Sigurðssyni og börnum þeirra. Myndina tók Pétur Eiðsson árið 1991.
Mynd nr. 21

Mynd nr. 21

Fjölskyldan í Tungu í Fáskrúðsfirði. Fremst sitja, talið frá vinstri: Lára Pálsdóttir, Stefán Pálsson, Valgerður Pálsdóttir og Kristín Pálsdóttir(?). Í næstu röð eru: Gunnar Pálsson, Elínborg Stefánsdóttir húsfreyja, Jón Pálsson, og Páll Þorsteinsson húsbóndi. Aftast eru: Sigurbjörg Pálsdóttir, Þorsteinn Pálsson frá Víðivallagerði í Fljótsdal (faðir húsbónda) og Halldór Pálsson. Myndina tók Björnúlfur Thorlacius. Hann lærði ljósmyndun á Seyðisfirði 1901 og starfaði þar til ársins 1904 er hann flutti til Kanada. Myndin er líklega tekin á því árabili.
Mynd nr. 22

Mynd nr. 22

Fólkið á þessari fjölskyldumynd er óþekkt og óvíst hvenær hún var tekin. Gefandi er Sigbjörn Jóhannsson í Blöndugerði.
Mynd nr. 23

Mynd nr. 23

Danski ljósmyndarinn N.P. Nielsen var líka á ferðinni í Strandhöfn í Vopnafirði og tók mynd af fjölskyldunni þar í fjöruborðinu. Fremst, frá vinstri: Guðjón Jósefsson, bóndi (situr undir Jósef Guðjónssyni), Sigurður Jakob Guðjónsson, Hildur Sigurðardóttir húsfreyja og Jósefína Kristín Guðjónsdóttir. Aftar standa: Ingibjörg Jósefsdóttir, Jakob Magnússon, Hilmar Jósefsson og Sigríður Jósefsdóttir. Ingibjörg, Hilmar og Sigríður voru börn Hildar af fyrra hjónabandi en fyrri maður hennar var Jósef Jósefsson, bróðir Guðjóns. Myndin er tekin sumarið 1915.
Mynd nr. 24

Mynd nr. 24

Óþekkt fjölskylda. Myndina tók Brynjólfur Sigurðsson. Gefanda er ekki getið og ekki er vitað hvenær myndin var tekin en það er þó fyrir árið 1911.
Mynd nr. 25

Mynd nr. 25

Mjög sjaldgæft var að íslenskir ljósmyndarar notuðu náttúruna sem baktjald eins og Bjarni Þorsteinsson, ljósmyndari frá Höfn í Borgarfirði gerir á þessari mynd. Fólkið og umhverfið er óþekkt. Bjarni vann að ljósmyndun í Danmörku og síðan hér heima um sex ára skeið á árabilinu 1897-1903. Fyrstu tvö árin var hann á Borgarfirði en síðan á Vopnafirði. Trúlegt er því að þessi skemmtilega mynd sé tekin á öðrum hvorum staðnum.
Mynd nr. 26

Mynd nr. 26

Ólafur Sigurjónsson og Valgerður Vigfúsdóttir í Dvergasteini á Reyðarfirði, ásamt börnum sínum Vigfúsi útibússtjóri Landsbankans á Reyðarfirði og Maríu talsímaverði, sem átti ævistarf sitt á símstöðinni á Reyðarfirði. Óvíst er hver tók myndina en hún er líklega tekin um eða uppúr 1950.
Mynd nr. 27

Mynd nr. 27

Jónas Kristjánsson læknir á Brekku og Hansína Benediktsdóttir með dætur sínar. Talið frá vinstri: Rannveig, Regína, Guðbjörg. Myndin er tekin árið 1911 um það leyti sem Jónas flutti burt og gerðist læknir á Sauðárkróki. Dvalartími Jónasar í Fljótsdal var tíu ár. Hann var rómaður læknir og gerði á stundum skurðaðgerðir við erfiðar aðstæður. Myndin er tekin á ljósmyndastofu Eyjólfs Jónssonar.
Mynd nr. 28

Mynd nr. 28

Konur á saumanámskeiði hjá Guðrúnu Gísladóttur. Guðrún er konan með rúðóttu svuntuna. Hún var mikil félagsmálakona og dugnaðarforkur og rak Klæðskeraverkstæði Eyjólfs Jónssonar á Seyðisfirði um árabil, en Eyjólfur var ekki bara lærður ljósmyndari heldur hafði hann líka numið klæðskeraiðn. Efst til hægri á myndinni er Katrín Sigmundsdóttir frá Gunnhildargerði seinni kona Sigfúsar Magnússonar á Galtastöðum ytri. Aðrar konur á myndinni eru óþekktar. Myndin er tekin á Ljósmyndastofu Eyjólfs Jónssonar, líklega á öðrum áratug 20. aldar.
Mynd nr. 29

Mynd nr. 29

Séra Magnús Blöndal í Vallanesi með sonum sínum. Til vinstri er Pétur sem lærði til prests og þjónaði um 20 ára skeið í Vallanessókn. Hann flutti þá til Reykjavíkur þar sem hann fékkst við ritstörf. Til hægri stendur Páll sem nam lögfræði. Hann starfaði m.a. á Eskifirði og var um skeið sýslumaður Rangæinga. Myndina tók Ólafur Magnússon í kringum 1920.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022