Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Austfirsk menning í ljósmyndum

Við úthlutun styrkja Menningarráðs Austurlands fyrr á þessu ári fékk Héraðsskjalasafn Austfirðinga fjárstyrk til verkefnisins Austfirsk menning í ljósmyndum. Markmið verkefnisins er að fara með sérsniðnar ljósmyndasýningar til byggðarlaga á starfssvæði safnsins. Nú er komið að Breiðdal og Stöðvarfirði. Miðvikudagskvöldið 3. október verður sýning í Kaupfjelaginu á Breiðdalsvík og hefst hún kl. 20:00.

Aðalefni sýningarinnar eru ljósmyndir (í powerpoint-fromi sem varpað verður á tjald) frá Breiðdal og Stöðvarfirði og af fólki þaðan. Auk þess verður á dagskránni stutt kynning á starfsemi Héraðsskjalasafnsins og sýning myndskeiðum úr safni Austfirska sjónvarpsfélagsins og útibús Stöðvar 2 á Austurlandi. Þau myndskeið eru frá 9. og 10. áratug síðustu aldar og gefa áhugavert þversnið af atvinnu- og mannlífi á Austurlandi á þeim tíma. Myndefnið sem sýnt verður – bæði ljósmyndir og lifandi myndir – kemur úr safnkosti Héraðsskjalasafnsins og Ljósmyndasafns Austurlands. Dagskráin verður u.þ.b. ein klukkustund að lengd og munu undirritaður og Arndís Þorvaldsdóttir hafa umsjón með henni.

Ég hvet Breiðdælinga og Stöðfirðinga til að fjölmenna á sýninguna. 
Aðgangur er ókeypis.

Hrafnkell Lárusson
forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga