Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Bókavaka í Safnahúsinu 11. desember

Bókavakan – Austfirsk útgáfa í öndvegi verður haldin í Safnahúsinu á Egilsstöðum fimmtudaginn 11. desember kl. 17:00-19:00. Kynntar verða nýútgefnar austfirskar bækur, lesið úr þeim og sagt frá útgáfu þeirra.

Úrgáfa ársins er mikil, að minnsta kosti sex ljóðskáld hafa sent frá sér ljóðabók, þau Ágústa Ósk Jónsdóttir, Hrafnkell Lárusson, Kristian Guttesen, Oddur Sigfússon frá Krossi í Fellum, Ragnar Ingi Aðalsteinsson og Stefán Bogi Sveinsson. Sigríður Lára Sigurjónsdóttir hefur sent frá sér tvær bækur, þriðja bindi af óstyttri sögunni um Önnu í Grænuhlíð og þroskasögu sína „Of mörg orð“. Hrönn Jónsdóttir á Djúpavogi gaf út skáldsöguna „Árdagsblik“ en Gísli Pálsson tók fyrir annan Djúpavogsbúa, verslunarmanninn Hans Jónatan sem stal sjálfum sér. Þá kom út bókin „Örnefni í Mjóafirði“ sem Vilhjálmur Hjálmarsson tók saman. Tvær barnabækur má nefna sem tengjast Austurlandi, í Hjálp eftir Þorgrím Þráinsson eru söguhetjurnar frá Egilsstöðum og annar höfunda í bókinni „Á puttanum með pabba“, Vala Þórsdóttir, er alinn upp í Fljótsdal. Loks má nefna Sögu Skriðuklausturs í Fljótsdal eftir Agnar Hallgrímsson og bókina Hreindýraskyttur eftir Guðna Einarsson en í þeirri bók má finna marga Austfirðinga. Nokkur ljóðskáld og Sigga Lára mæta og lesa sjálf upp úr bókum sínum en aðrir lesarar sjá um þá sem lengra eru að komnir eða eiga illa heimangengt. Bókavakan verður haldin að venju á neðstu hæðinni, í anddyrinu fyrir framan Héraðsskjalasafnið. Aðgangur er ókeypis, kaffi á könnunni og allir velkomnir.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022