Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Kallað eftir skjölum kvenna

Hélt mamma dagbók? Var amma skúffuskáld? Eru bréf langömmu í geymslunni? Héraðsskjalasafnið tekur þátt í þjóðarátaki um söfnun á skjölum kvenna. Eru bréf, dagbækur eða ljósmyndir í þínum fórum?

Nú í ár fagna landsmenn 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Af því tilefni efna Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfnin til þjóðarátaks um söfnun á skjölum kvenna og hvetja landsmenn til að afhenda þau á skjalasöfn. Bréf, dagbækur og önnur persónuleg gögn geta veitt innsýn inn í líf einstaklinga og fjölskyldna þeirra en einnig varpa þau ljósi á sögu lands og þjóðar.

Því miður er það staðreynd að skjöl kvenna skila sér síður inn á söfnin en skjöl karla og þykir starfsmönnum safnanna því tilhlýðilegt að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna með því að minna á mikilvægi þessara gagna og hvetja landsmenn til að stuðla að varðveislu þeirra með því að koma þeim í örugga geymslu. Er þar t.d. átt við bréf, dagbækur, handskrifaðar matreiðslubækur, póstkort, teikningar, ljósmyndir, kvæði, smásögur og ýmsan fróðleik sem vert er að halda upp á, ásamt handritum sem voru í eigu kvenna.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga hefur frá stofnun 1976 tekið við skjölum bæði karla og kvenna sem eru skráð á sambærilegan hátt. Meira er þó af skjölum karla og vill starfsfólk safnsins gjarnan bæta hlut kvenna með þátttöku í þessu landsátaki. Áhugaverðast væri að fá bréf, dagbækur og ljósmyndir en auðvitað erum við tilbúin að skoða allt sem fólk vill afhenda safninu til varanlegrar eignar og varðveislu.

Opinberum stofnunum er skylt að afhenda skjöl til héraðsskjalasafns en söfnin hafa einnig tekið við einkaskjölum af ýmsu tagi. Því miður hefur mikilvægum skjölum og áhugaverðum heimildum verið hent gegnum tíðina hvort sem um er að ræða skjöl einstaklinga eða félagasamtaka. Stundum er fólk í vafa um hvað á að varðveita og hvað sé merkilegt. Hvetjum við fólk því til að hafa samband við okkur til að fá upplýsingar og ráðgjöf varðandi frágang og skil á gögnum.

iconKallað eftir skjölum kvenna  (veggspjald)

kvennaskjol.png

100_ara_logo.jpg 

 

 

 

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022