Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Guðgeir Ingvarsson – minning

Þann 14. febrúar sl. lést Guðgeir Ingvarsson, vinur okkar og samstarfsfélagi. Okkur langar fyrir hönd starfsmanna Safnahússins á Egilsstöðum að minnast hans með nokkrum orðum.

Guðgeir kom til starfa á Héraðsskjalasafni Austfirðinga árið 2004 og var safnið vinnustaður hans allt þar til hann lést. Guðgeir þekkti vel til safnsins þegar hann hóf  þar störf árið 2004 því á árunum 1992 til 1998 hafði hann unnið þar í hlutastarfi.

Það var afar gott að vinna með Guðgeiri. Hann var ljúfur og viðkunnalegur í umgengni og nutu bæði gestir og samstarfsfólk þeirra lyndiseinkenna hans. Eftir að Guðgeir sneri aftur til starfa á safninu sinnti hann einkum skjalaskráningu og afgreiðslu erinda. Hann hafði ánægju af starfi sínu og vann af  alúð þau verkefni sem honum voru falin.
 
Það er lýsandi fyrir vinnulag Guðgeirs að þeir sem höfðu notið aðstoðar hans á safninu leituðu gjarnan til hans aftur, og spurðu þá sérstaklega eftir honum ef aðrir voru til svara. Guðgeir var hneigður til fræðimennsku og  leysti verkefni af þeim toga af þeirri nákvæmi og samviskusemi sem honum var eðlislæg. Hann var ágætlega ritfær og naut Héraðsskjalasafnið þess oft þegar taka þurfti saman upplýsingar og koma á framfæri.

Guðgeir átti við vanheilsu að stríða um árabil. Engu að síður bar andlát hans óvænt að. Við sem störfum í Safnahúsin höfum misst félaga og vin sem við minnumst með hlýju og þakklæti. Héraðsskjalasafnið hefur líka misst mikið. Í gegnum árin hafði Guðgeir aflað sér víðtækrar þekkingar um ýmsa þætti starfsins og skilur því eftir sig skarð sem verður vandfyllt.

Fyrir hönd starfsfólks Safnahússins vottum við börnum Guðgeirs og öðrum aðstandendum innlega samúð vegna fráfalls hans.

Arndís Þorvaldsdóttir
og Hrafnkell Lárusson

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022