Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Norræni skjaladagurinn 13. nóvember 2021

Í dag er Norræni skjaladagurinn haldinn víða um Norðurlönd. Tilgangur dagsins er að minna á mikilvægi skjalasafna og kynna starfsemi þeirra og safnkost.

Mörg undanfarin ár hafa Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfnin hér á landi haldið upp á daginn með ýmsum hætti. Efni sem orðið hefur til undanfarin ár má nálgast á vefsíðunni skjaladagur.is, sem er í umsjá Þjóðskjalasafnsins, en á hverju ári hefur eitt þema ráðið för en söfnin unnið með þau hvert með sínum hætti.

Í ár mun efni ekki verða fært inn á síðuna en ýmis söfn hafa eigi að síður unnið með þema ársins, sem að þessu sinni er „Sveitalíf“. Efni frá söfnunum er miðlað í gegnum Facebook-síðuna Skjalasöfnin kynna sig.

Hér á Héraðsskjalasafni Austfirðinga var ákveðið í því samhengi að beina sjónum að heimagrafreitum, sem eru algengari í umdæmi Héraðsskjalasafns Austfirðinga en víðast annarsstaðar. Eftir því sem næst verður komist var stofnað til 54 heimagrafreita á svæðinu á 70 ára tímabili frá árinu 1893 til 1963. Bannað var með lögum að stofna nýja slíka grafreiti það ár.

Elsta heimagrafreit á Austurlandi er að finna að Rangá í Hróarstungu og er konunglegt leyfisbréf fyrir honum varðveitt hér á safninu. Það er til sýnis hér að neðan, ásamt leyfisbréfi þess næstelsta sem er að Sleðbrjót í Jökulsárhlíð. Það leyfisbréf var afhent safninu fyrir um hálfum mánuði síðan í kjölfar málstofu sem safnið stóð fyrir. Þar flutti Dr. Hjalti Hugason erindi en hann hefur rannsakað efnið um hríð og birt um það greinar.

Í tilefni Norræna skjaladagsins birtir Héraðsskjalasafn Austfirðing upptöku af málstofunni þar sem fræðast má um þennan merkilega sið, að jarðsetja í heimagrafreit.

Skjölin sem verða til sýnis út árið eru þessi:

1. Konunglegt leyfisbréf til Halls Einarssonar og Gróu Björnsdóttur, Rangá, til að gera heimagrafreit árið 1893. (Eink 1-8)
2. Konunglegt leyfisbréf til Solveigar Sigurðardóttur, Sleðbrjót, til að gera heimagrafreit árið 1895. (Eink 559-26)
3. Bók heimilisgrafreits á Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. (Eink 1-17)
4. Eyðublað fyrir upplýsingar um heimagrafreiti, ætlað próföstum til útfyllingar. (Stofn 125, Kirk 54-1)
5. Tvær ljósmyndir úr Ljósmyndasafni Austurlands af heimagrafreitnum að Rangá í Hróarstungu.

 

Upptöku af málstofunni má skoða hér að neðan.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022