Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Góðir gestir í heimsókn

Góðir gestir í heimsókn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga hefur um nokkurt skeið átt í góðu samstarfi við sjálfboðaliðasamtökin Icelandic Roots og sóttu tveir fulltrúar samtakanna safnið heim í dag.

Þær Sunna Furstenau og Cathy Ann Josephson eru þessa dagana á ferð um Austurland í erindum fyrir samtökin. Sunna, sem  er einn stofnenda Icelandic Roots og forseti samtakanna, er fædd og uppalin á Íslendingaslóðum í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Hún hefur árum saman unnið að ýmsum verkefnum sem tengjast ættfræði og fjölskyldusögu.

Cathy er Austfirðingum að góðu kunn, enda verið búsett á Vopnafirði um margra ára skeið. Hún er af ættum Vestur-Íslendinga en ákvað að snúa aftur á slóðir forfeðra sinna og hefur síðan þá unnið að ýmsum verkefnum sem tengjast vesturförunum og sögu þeirra. Hún fer nú fyrir teymi þeirra sjálfboðaliða Icelandic Roots sem búsettir eru á Íslandi.

Á vef Icelandic Roots er hægt að fræðast nánar um samtökin (vefurinn er á ensku) en eitt meginverkefni þeirra er að halda úti gagnagrunni þar sem einstaklingar af íslenskum ættum geta skráð sig og leitað að ættingjum bæði vestan hafs og austan. Það er óhætt að mæla með því að allir þeir sem hafa áhuga á sögu fjölskyldu sinnar og ættingjum í Vesturheimi kynni sér nánar starf samtakanna.

Aðkoma Héraðsskjalasafns Austfirðinga hefur einkum falist í því svara fyrirspurnum um forfeður Vestur-Íslendinga og ekki síst leit að ljósmyndum af þeim. Það er ætíð nokkuð um slíkar fyrirspurnir, bæði frá einstaklingum sem sjálfir eru að kanna eigin fjölskyldusögu og svo sjálfboðaliðum sem vinna að skráningu slíkra upplýsingu fyrir Icelandic Roots. Þá hefur gagngagrunnur Icelandic Roots oft komið sér vel þegar starfsfólk safnsins er að skrá og merkja bæði skjöl og ljósmyndir.

Mynd: (f.v.) Stefán Bogi Sveinsson forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga, Cathy Ann Josephson, Magnhildur Björnsdóttir héraðsskjalavörður og Sunna Furstenau.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022