Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |     |   

Aðalfundur 2019

Aðalfundur Héraðsskjalasafnsins var 29. nóvember. Til afgreiðslu var ársreikningur 2018, fjárhagsáætlun 2020 og skýrsla um starfsemi safnsins á árinu 2018.

Aðalfundur 29. nóvember

Anna Margrét Birgisdóttir flutti skýrslu stjórnar en auk hennar eru Helgi Bragason og Þorbjörg Sandholt í stjórn safnsins. Jódís Skúladóttir hjá Austurbrú stjórnaði fundinum og Bára Stefánsdóttir ritaði fundargerð.

Bára Stefánsdóttir forstöðumaður fór yfir ársskýrslu fyrir árið 2018 og ársreikning fyrir sama ár. Hún fór einnig yfir fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 sem var fyrst send til sveitarfélaga í júní með samþykki stjórnarfundar þann 3. júní. Þá var gert ráð fyrir að bæta við starfsmanni í 1 stöðugildi. Meirihluti sveitarfélaga var tilbúinn til að verða við beiðninni en Fjarðabyggð samþykkti ekki fjölgun stöðugilda á safninu. Á aðalfundinum var því lögð fram lægri fjárhagsáætlun með 10% hækkun framlaga á milli ára og var hún samþykkt með 5 atkvæðum en fulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar sat hjá við atkvæðagreiðslu.

Hér má nálgast fundargerð aðalfundar 2019, ársskýrslu 2018 og ársreikning 2020.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum kynnti Bára starfsemi Héraðsskjalasafnsins og hlutverk þess samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn. Hún fór yfir eftirlitsskýrslu frá Þjóðskjalasafni Íslands um safnið og ábendingar í henni. Þjóðskjalavörður gerir athugasemdir við að sveitarstjórnir hafi ekki breytt starfsemi héraðsskjalasafna þannig að hún uppfylli kröfur laga. Héraðsskjalasöfnin geti ekki miðað við núverandi mönnun sinnt lögbundnum hlutverkum sínum.
Héraðsskjalasafnið er stjórnsýslustofnun sem á að hafa eftirlit með skilaskyldum aðilum. Sveitarfélögum og stofnunum á þeirra vegum er skylt að haga skjalavörslu sinni í samræmi við lög um opinber skjalasöfn og reglum sem á þeim byggja.
Bára hefur að beiðni stjórnar unnið skýrslu um Héraðsskjalasafnið sem verður svar til Þjóðskjalasafns um hvaða þáttum hefur verið brugðist við miðað við núverandi mönnun og fjármagn. Í október sendi hún rafræna eftirlitskönnun til sveitarfélaga á Austurlandi.
Á næsta ári verður starfsáætlun fyrir árin 2021-2023 send til aðildarsveitarfélaga sem fylgiskjal með fjárhagsáætlun.

 

Héraðsskjalasafn AustfirðingaLaufskógum 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471 1417
Tölvupóstur:   heraust@heraust.is

  Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir. Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© 2020 Héraðsskjalasafn Austfirðinga