Starfsfólk  |  EN  |  ISL  |    |  

Samningur um viðbyggingu við Safnahúsið

Ný burst mun rísa við Safnahúsið á næstu árum samkvæmt samningi sem undirritaður var við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu í gær.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs undirrituðu samkomulagið sem felur í sér stofnframlag til byggingar menningarhúss á Egilsstöðum. Málið á rætur að rekja til ársins 1999 en þá ákvað þáverandi ríkisstjórn að fé skyldi lagt í menningarhús á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum. Uppbyggingu er ekki lokið á Egilsstöðum og Sauðárkróki.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að stofnframlaginu verði varið til uppbyggingar í Sláturhúsinu sem verði gert að fjölnota menningarhúsi sem rúma skuli m.a. sviðslistir, tónlist, sýningar og vinnustofur. Einnig verði reist ný burst við Safnahúsið, líkt og ráð var fyrir gert í upprunalegum teikningum, sem verði til að bæta aðstöðu fyrir safnkost og sýningar auk aðstöðu fyrir fræði- og rannsóknarstörf. Markmið samkomulagsins er að framangreindar byggingar verði ekki einungis vettvangur menningar- og safnastarfsemi á Fljótsdalshéraði heldur að þær gegni einnig lykilhlutverki sem slíkar á Austurlandi.

Safnahúsið við Laufskóga á Egilsstöðum er í eigu Fljótsdalshéraðs. Í húsinu eru þrjú söfn: Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Minjasafn Austurlands og Bókasafn Héraðsbúa. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að framkvæmdir hefjist.

Sjá nánar í frétt á vef mennta- og menningarráðuneytis.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga

Laufskógar 1, 700 Egilsstaðir

Sími: 471-1417
Tölvupóstur: heraust@heraust.is

Senda fyrirspurn

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag á vegum sveitarfélaga á Austurlandi. Safnið starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014 og er sjálfstæð skjalavörslustofnun en lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Megin hlutverk safnsins er að taka við skjölum og hafa eftirlit með skjalavörslu aðildarsveitarfélaga sinna og stofnana á þeirra vegum. Í safninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir.

Öll söfnin í héraðsskjalasafninu - skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið - stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín.

© Héraðsskjalasafn Austfirðinga 1998-2022